fbpx

Fjölskyldan

Þórður Júlíusson (Doddi), fæddur 1950. 

Doddi er líffræðingur, en samhliða búskapnum á Skorrastað var hann kennari í 36 ár og endaði skólastarfið sem skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands. Hann er fæddur og uppalinn á Skorrastað. Sauðfjárbúskapur og hestamennska hafa farið vel saman í lífi hans, meðal annars í fjárleitum á hestum í austfirsku fjalllendi. Enn þann dag í dag ber hann ummerki eftir fyrsta hestinn sinn, Litla-Skjóna sem sló hann í höfuðið er hann var 6 ára gamall. Doddi hefur yndi af söng og tónlist og starfar í ýmsum kórum á Austurlandi. Reiðtúrar og hestaferðir undir stjórn Dodda eru líklega að einhverju leyti öðruvísi en almennt gerist, því söngur, dans og þjóðlegur fróðleikur er á dagskránni þegar við á. Doddi er með leiðsögumannaréttindi og talar ensku, þýsku og dönsku ásamt móðurmáli. 

Theodóra I. Alfreðsdóttir (Thea), fædd 1951.

Thea er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún er sankallaður dýravinur frá barnsaldri. Thea er listfeng og þó svo að hún sitji ekki hestinn lengur þá mótar hún þá í leir og mynd. Einnig er hún frábær kokkur, eins og gestir og fjölskyldan margoft hafa hrósað henni fyrir. Fyrir utan móðurmálið hefur Thea enskuna á hraðbergi og skilur lítillega önnur mál, svo sem dönsku og þýsku. 

Jóna Árný Þórðardóttir, fædd 1977.

Jóna er elsta dóttir Dodda og Theu. Hún býr á bænum með fjölskyldu sinni og tveimur börnum. Jóna byrjaði snemma í hestamennsku og hefur í gegnum tíðina hjálpað til í ferðaþjónustinni. Jóna keypti sér söðul fyrir fermingarpeningana sína og hefur komið fram t.d. á 17. júní sem fjallkonan á hátíðarhöldum í Neskaupstað, ríðandi í söðlinum. Hún er löggiltur endurskoðandi að mennt og vinnur sem framkvæmdarstjóri Austurbrúar. Jóna talar ensku og dönsku og lærði þýsku í framhaldsskóla hjá föður sínum. 

Sóley Þórðardóttir, fædd 1984.

Sóley er uppalin í kringum hesta og byrjaði reiðmennsku sína syngjandi við hlið föður síns. Hún er doktor í líflæknivísindum, vinnur hjá Alvotech og býr í Reykjavík. Hún á þó enn hesta heima á Skorrastað og kemur og hjálpar til í sauðburði og við ferðaþjónustuna þegar tækifæri gefst. Sóley er að sjálfsögðu talandi á mörgum tungumálum, og hefur lindy-hop dans að aðaláhugamáli. 

Sunna Júlía Þórðardóttir, fædd 1993.

Sunna er yngsta dóttir Dodda og Theu. Hún er líka uppalin í kringum hestana og býr á sveitabænum. Árið 2006 tók hún þátt á Landsmóti hestamanna á hestinum Sleipni. Sunna sér um að temja yngri hestana á bænum fyrir Skorrahesta og finnst skemmtilegast að ríða erfiðari hestunum. Sunna kláraði nám sem fatahönnuður í Danmörku, en starfar sem allt-muligt manneskja fyrir Skorrahesta.
Sunna talar ensku, dönsku og þýsku ásamt móðurmáli. 

Sigurður Ólafsson (Siggi), fæddur 1974.

Siggi er giftur Jónu. Hann er ekki mikill hestamaður, en hefur yndi af göngu og leiðsegir í gönguferðum fyrir Skorrahesta. Hann er tónlistarmaður og hefur meðal annars spilað á Eistnaflugi með hljómsveitinni URÐ. Siggi vinnur sem mannauðsstjóri fyrir SVN og hefur nýlokið námi í Fjölskylduráðgjöf. 
Hann er að sjálfsögðu flugmælskur á ensku og talar auk þess norðurlandarmál. 

Sigríður Theodóra Sigurðardótir (Sigga Thea), fædd 1998.

Sigga Thea er dóttir Jónu og Sigga. Hún flutti til Reykjavíkur 2019 til náms og hjálpar Skorrahestum í ferðaþjónustunni á sumrin þegar hún kemur heim í sumarfrí. Sigga Thea er eigandi Smára. 

Júlíus Bjarni Sigurðsson (Júlli), fæddur 2008.

Júlli er fæddur 1. maí 2008 – sama dag og hryssan Maísól. Júlli er ungur hestamaður en á sinn eigin hest, Skarp. Uppáhalds hesturinn hans Júlíusar fyrir utan Skarp er Skálmöld. 

Aðstoð Skorrahesta

Margir leggja Skorrahestum lið 
Vini og fjölskyldu Skorrahesta má nú finna um allt land og langt út fyrir landsteinana. Það er ómetanlegt hvað allir eru hjálplegir að gera upplifun gesta sem ánægjulegasta. Að sjálfsögðu verður seint slíkt fullþakkað. 

 

Hestarnir