Íslenski hesturinn er sérstakt hestakyn. Hann var fluttur inn með landnámsmönnum við upphaf byggðar á Íslandi, og hefur fylgt íslensku þjóðinni í gegnum súrt og sætt í gegnum aldirnar og hlotið virðingarheitið þarfasti þjónninn. Reiðhestshæfileikar eru verðmætasta einkenni íslenska hestsins nú á tímum, en fyrrum var mikilvægara hve vel þeir gátu þolað íslenska veðráttu, hve duglegir og samvinnuþýðir þeir voru og úthaldsgóðir. Ganghæfni íslenska hestsins er einstök. Ekkert annað hestakyn státar af fullu valdi á fimm gangtegundum. Ræktunin síðustu áratugi hefur miðað af því að stækka hestinn nokkuð og breyta sköpulagi hans með tilliti til meiri glæsileika. Fjölbreytni í litum íslenska hrossa er einstök, miðað við önnur hestakyn, og það hefur meðal annars borið hróður hans um alla veröld. En ef íslenskur hestur er fluttur úr landi á hann aldrei afturkvæmt heim á Frón. Helstu notagildi hestsins í dag eru til skemmtireiðar, keppni, reiðtúrar og ferðalög með gesti og íslendinga sjálfa, kjötframleiðslu, fjárleita og sem besti vinur mannsins. Einnig eru unnin lyf og efni úr blóði fylfullra hryssna. Íslenski hesturinn er ein af undirstöðum stöðugleika og efnahagslegra framfara á Íslandi. Í kringum hann hefur skapast viðamikil starfsemi auk eftirsóknarverðra lífsgæða sem fylgja honum. Á alþjóðavísu er til ættbók íslenska hestsins eins og Þjóðskráin yfir íslendinga sjálfa. Margt mætti um þessa ættbók segja, en eitt athyglisvert er að þar er starfandi hestanafnanefnd, sem framfylgir því að ekki fáist skráðir í ættbókina hestar með nöfn sem ekki falla að reglum nefndarinnar.
Sproti, fæddur 1996.
Sproti er gangsamur geldingur. Hann er með gott tölt og velur það framyfir aðrar gangtegundir. Hann er vinalegur og gerir allt fyrir knapann. Sproti leiðir hópinn í rekstri. Þegar Doddi fer í fjárleitir þá tekur hann Sprota með, en þarf ekki að hafa hann í hendi, því hann eltir vel. Eitt skiptið missti Sproti sjónar á Dodda í fjárleitum, en hann leitaði hans og hestsins Sólons alls staðar í fjöllunum en fann þá hvergi. Þá endaði hann bara á því að hlaupa heim á Skorrastað og beið þar eftir þeim Dodda og Sóloni.
Sleipnir, fæddur 1994 – felldur 2019.
Sleipnir er gangsamur geldingur með mikið fax og tagl. Hann tekur stór skref og er þar af leiðandi vel hastur á brokki. Hann er töluvert minni en meðalhestur á hæð, en það háir honum alls ekki. Í fyrsta túrnum hjá Skorrahestum sumarið 2012 var Sleipnir sleginn og gat ekki klárað túrinn. Hann var þá skilinn eftir í Vöðlavík, sem er eyðibyggð, til að jafna sig í 3 vikur. Hann fékk svo pásu allann næsta vetur eftir það og lagaðist á fætinum. Sleipnir var lengi vel aðal keppnishestur fjölskyldunnar. Hann hafur farið á Fjórðungsmót og Sunna keppti á honum á Landsmóti 2006 í barnaflokki. Eftir Landsmót tók Doddi hann með sér í 9 daga ferð frá Skagafirði til Norðfjarðar. Lengi vel var Sleipnir stjóri hestahópsins.
Sólon, fæddur 1998 – felldur 2019.
Sólon er gangsamur geldingur og besti eiginleiki hans er hversu viljugur hann er. Hann kemst á rosalega ferð á skeiði og er yfirleitt fyrstur í kapphlaupum eftir sandinum. Hann veit vel hvenær er von á keppni og undirbýr sig allann reiðtúrinn. Sólon er útaf stóðhesti Dodda, H-Blesa sem var fæddur 1968 og felldur 1998. Afkomendur H-Blesa eru flest öll vel viljug og miklir vinnuþjarkar. Sólon er af gamla hestakyninu, og þar af leiðandi þarf að nota á hann reiða niður fjalllendið, svo hnakkurinn renni ekki fram á háls.
Vaka, fædd 2001.
Vaka er systir Sólons, og þ.a.l. líka afkomandi H-Blesa. Hún er með mjúkasta töltið, en tekur afar stutt skref. Hún er skemmtilegur persónuleiki, og mjúk á tauminn. Við pössum að Vaka fær ekki að éta jafnmikið og hún myndi vilja. Eins og Sólon notum við reiða á Vöku, til að halda hnakkinum á sínum stað.
Ljóska, fædd 2002.
Ljóska er góður fjallahestur. Hún er með mjúkar gangtegundir og frábæra yfirferð á stökki eins og afkomendur H-Blesa. Henni þykir best að fylgja næsta hesti, en samt er lítið mál fyrir hana að vera fremst og leiða. Hún er góð til reiða í rekstur, þar sem hún fer allt sem maður vill. Eins og allir aðrir H-Blesa afkomendur, þá notum við reiða á Ljósku, svo hnakkurinn fari nú ekki að snúast. Ljóska er notuð undir alla reiðmenn, vana sem óvana og börn sem fullorðna.
Skúmur, fæddur 2002.
Skúmur er skemmtilegur fimmgangari. Þeir sem þekkja Skúm vita að hann er mjúkur ásetu og auðveldur í taumi. Skúmur bjó í eitt ár í Reykjavík með eigandanum Sóleyju þegar hann var 4 vetra, og er einn af fáum hestunum okkar sem hafa upplifað öngþveitið í Reykjavíkinni.
Silfurtoppur, fæddur 1993 – felldur 2017.
Sigga Thea fékk Silfurtopp í sumargjöf þegar hún var 5 ára gömul. Hún nefndi hann eftir Playmobil hestinum Silfurtoppi. Hann er þrautseygur hestur sem elskar að éta. Hann er mikill fjallagarpur og getur borið þunga knapa um allar sveitir. Doddi tók Silfurtopp með sér uppá Goðaborg 4.september 2004 ásamt Sleipni og Stjörnu. Silfurtoppur ber sjaldgæfan lit, bleikálóttan vindóttan og var um tíma mest myndaði hesturinn í stóðinu.
Mugga, fædd 1998 – felld 2019.
Mugga er harðdugleg fjallahryssa. Fyrrverandi eigandinn kallaði hana alltaf ,,Mugga mín” þegar hann talaði við hana og þá auðvitað töluðum við svoleiðis við hana líka. Mugga er þíð hryssa á gangi og dugleg víðsvegar í náttúrunni. Hún er mikið notuð í hendi undir unga knapa, enda unir hún sér best með börnin á baki.
Smári, fæddur 1998.
Smári er fæddur 1. maí og nefndur eftir Smára Geirssyni, sósíalista Litlu Moskvu (Neskaupstað). Smári (hesturinn) er hefur verið góður tölthestur í gegnum tíðina og reyndur byrjendahestur. Nú er hann mest notaður af yngri knöpum, enda unir hann því best. Þegar Smári hleypur laus með hjörðinni kemur villta hliðin hans fram og hugsunin ,,heima er best” er alltaf bakvið eyrað.
Daniella, fædd 2003.
Daniella er svokallað spútnik hryssa. Hún er góð í fjallinu og kemst yfir alls konar erfiðar leiðir. Hún er mikið notuð í fjárleitum, þar sem henni þykir skemmtilegast að vera ein með knapanum á erfiðum slóðum. Hún getur farið á fleygiferð á skeiði og heldur í við hröðustu stökkvarana okkar. Hún er auðveld í beisli en mjög viljug. Einungis bestu knaparnir hafa prófað hana. Daníella er undan Þyrni frá Þóroddsstöðum.
Skíma, fædd 2004.
Skíma er traust hryssa sem er auðvelt að ferðast á hvert sem förinni er heitið. Hún á ennþá erfitt með tölt á jafnsléttu, en mjúk utanvegar. Hún fer allt sem maður vill og er eins og hugur manns í fjárleitum.
Skorri, fæddur 2007 – felldur 2018.
Skorri er mjög fallegur hestur undan Gára frá Auðsholtshjáleigu. Hann er með mikið fax, tagl og flottan fótaburð. Hann var ekki auðveldur í tamningu, en lærði samt meðal annars spænska sporið. Hann er einungis fyrir þá allra hörðustu til að prófa.
Freyja, fædd 2005.
Freyja er með mikla fótaburði á tölti. Hún er næm á beislið og fylgist vel með öllu sem gerist í umhverfinu. Henni þykir best að vera önnur í röðinni í reiðtúrum og passar að enginn fari framúr henni þar. Hún er svo sannarlega mikill víkingur og vill ekki láta binda sig við neitt og hefur slitið ófá beislin í gegnum tíðina.
Freyja er móðir Rösvku.
Skotta, fædd 2007 – felld 2019.
Skotta er í eigu Siggu Theu, barnabarns Dodda og Theu. Hún er mikill vinnuþjarkur og mjúk ásetu. Sigga Thea keypti Skottu í hestaréttum fyrir norðan þegar Skotta var einungis 2 vetra gömul. Þá átti Skotta að fara í sláturhús, en vegna flotts litar bjargaði Sigga Thea henni. Hún er góð fyrir alla knapa sem kunna eitthvað.
Súper-Sindri, fæddur 2005.
Rokkarinn í hópnum er öruggasti hesturinn okkar fyrir knapa sem hafa aldrei setið hest áður. Hann er mjög stór og sterkur, þar sem hann var ekki geldur fyrr en hann var 4 vetra. Hann er mjög þýður á brokki og getur farið á hægt stökk. Við treystum honum 100% og þurfum því ekki að hafa áhyggjur af knöpum sem sitja hann. Súper-Sindri og Freyja eru undan sama hesti, Þokka frá Árgerði.
Sindri, fæddur 1996 – felldur 2019.
Sindri er þaulvanur og öruggur hestur. Hann er ekki lengur hraðasti hesturinn okkar, en kann að passa vel uppá óörugga knapa. Brokkið hans er mjög mjúkt, en hann töltir ekki mikið. Þegar hann hleypur laus yngist hann töluvert og hlakkar til að fá nýtt gras. Sindri er til hægri á myndinni.
Skálmöld, born 2009.
Skálmöld, víkingshryssan, var keypt 2018 frá bónda nálægt Húsavík. Hún var aðallega keypt vegna sjaldséðs litar og hefur svo sannarlega lífgað uppá hópinn með litnum. Hún er núna einn vinsælasti reiðhesturinn því hún er með svo mjúkt tölt og góðan reiðvilja. Hún vill helst ekki leiða hópinn, en vill líka ekki vera síðust á leiðinni. Hún er góð bæði fyrir vana sem óvana reiðmenn. Hún hét upphaflega Díana, og móðir hennar Prinsessa. Okkur fannst nafnið ekki passa persónuleika hennar og gáfum henni þess vegna nafnið Skálmöld. Skálm þýðir sverð og þess vegna passar þetta nafn vel við hana. Einnig dregur hún nafn sitt af þungarokkshljómsveitinni Skálmöld, sem vert er að skoða.
Elgur, fæddur 1996 – felldur 2019.
Elgur kom á Skorrastað 2007 frá Vopnafirði. Hann er síðasti afkomandi H-Blesa sem við fengum. Elgur var ekki auðveldur í tamningu. Hann var búinn að fara til margra tamningarmanna sem allir gáfust upp á honum. Doddi byrjaði að temja hann að vetri til þegar mikill snjór var á reiðveginum, svo hann gæti ekki hlaupið með hann. Elgur var taminn í u.þ.b 2 ár af Doddi áður en einhver annar gat riðið honum. Síðan þá hefur hann verið uppáhalds fjárleitarhesturinn hennar Sunnu, þar sem hann fer yfir holt og hæðir óumbeðinn. Hann er klárhestur með mikinn vilja. Síðan Elgur kom hefur hann verið að missa sjónina á öðru auganu gegnum árin. Þrátt fyrir það hefur það ekki stoppað hann en knapar þurfa að passa sig betur og sjá fyrir hann.
Geysir, fæddur 2004.
Geysir var keyptur utan úr bæ 2017. Hann er með mjög gott og mjúkt tölt og kemst á mikla yfirferð. Hann á erfitt með að standa kyrr, sérstaklega þegar mikið er um að vera. Doddi komst svo að því seinna meir að hann væri undan Hróa frá Skeiðháholti, sem var stóðhestur sem Doddi hafði mikla löngun til að leiða hryssu undir, en varð ekki að.
Hrollur, fæddur 2000.
Hrollur er í eigu Sigga í Steinsnesi, utan úr bæ. Hann kemur oft með okkur í reiðtúra. Hrollur er klárhestur með mikla yfirferð á tölti.
Haukur, fæddur 1998.
Haukur er fæddur í Efri-Skálateigi 1, hjá nágrannanum. Hann var lengi vel aðalhestur nágrannans, en 2016 keyptu Skorrahestar Hauk til að eyða eldri árum sínum hjá okkur. Hann er góður fyrir knapa á öllum aldri, reynda sem óreynda. Hann er auðveldur á tölti og mjúkur á brokki. Vorið 2018 munaði litlu að Haukur lést, þar sem hann féll ofan í skurð sem var falinn undir miklum snjó. Doddi sá að eitthvað væri að þegar hann kíkti á hestana einn morguninn og fann svo för að skurðinum sem var um 3 metrar á dýpt. Til þess að ná Hauki upp þurfti traktor og nokkrar sterkar manneskjur. Þegar hann var kominn upp úr skurðinum var hann mjög blautur og drullugur og óvíst hvernig ástandið á honum væri. En það tók ekki nema nokkrar sekúndur fyrir Hauk að standa á lappir og hlaupa á ný. Hann dvaldi í 2 nætur í hesthúsi nágrannans þar sem annað augað fylltist af drullu og vatni og þurfti að hreinsa það vel. Eftir það fór hann aftur á túnið eins og ekkert hafi skeð. Mikill víkingur.
Haukur er til vinstri á myndinni.
Stubbur, fæddur 1995 – felldur 2019.
Stubbur er í eigu vinafólks úr Neskaupstað. Hann hefur búið á Skorrastað í um 10 ár. Hann er gangsamur geldingur með mjög blíðan persónuleika. Hann kemst á mikla ferð á skeiði.
Melkorka, fæddur 2009.
Melkorka er fædd á Skorrastað. Hún er klárhryssa með frábært tölt, bæði á hægu og yfirferð. Einnig kemst hún á mikla yfirferð á brokki og stökki. Hún er sjálfstæð, örugg, með góðan reiðvilja og hentar fólki sem hafa reynslu.
Orka, fædd 1992 – felld 2019.
Orka frá Meðalfelli var keypt af Dodda og Jónu 2003 og hefur verið aðalræktunarhryssan á Skorrastað. Hún hefur átt 12 folöld á 14 árum: Skörungur, Skrúður, Maísól, Skarpur, Kyndill, Fröken Fífa, Gletta, Skerpla, Gípa, Skáldið, Úlfur and Sólstafur.
Skörungur, fædd 2004.
Skörungur kemst hraðast allra hesta á tölti. Hann er með fimm gangtegundir en ekki taminn á skeiði. Hann er vinnuþjarkur á fjalli og mikill og stór hestur. Hann er samt sem áður mjög ljúfur persónuleiki og hentar bæði börnum sem og fullorðnum. Skörungur er undan Sæ frá Bakkakoti.
Maísól, fædd 2008.
Maísól er fögur hryssa með mjög góða yfirferð á tölti. Hún gæti orðið falleg ræktunarmeri, en í augnablikinu njótum við hennar sem frábærri reiðhryssu. Hún er fyrir vel reynda knapa. Hún er næm og hlustar vel á hvað knapinn vill gera. Hún er undan Hágangi frá Narfastöðum.
Skarpur, fæddur 2009.
Skarpur er í eigu Júlíusar Bjarna, barnabarns Dodda og Theu. Skarpur er mjög öruggur hestur og hentar bæði börnum og fullorðnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í hestamennsku. Hann er mjög ljúfur persónuleiki, með gott tölt og stórstígur á brokki.
Kyndill, fæddur 2010.
Kyndill er klárhestur með gott tölt undir reyndum knöpum. Ein hans besta gangtegund er hæga stökkið, þar sem hann svífur á skýjum. Hann er vatnshræddur, svo það þarf að vera ákveðinn á honum. Hann er orðinn einn af aðalkeppnishestunum okkar í smáum keppnum. Þó hafa flest systkin hans verið líka í keppnum.
Fröken Fífa, fædd 2011.
Fröken Fífa er undan stóðhestinum Fífli frá Eskifirði. Hún er smá en með mikinn vilja. Hún er ekki fulltaminn og þess vegna einungis fyrir vel reynda knapa.
Gletta, fædd 2012.
Gletta er gæludýrið á Skorrastað. Hún hefur alltaf þótt gott að fá klapp frá fjölskyldunni og nýjum einstaklingum. Hún er mikið tamin og vel viljug. Hún er hrædd við vatn og þarf þess vegna reyndan knapa. Hún er gangsöm og þarf að passa að leyfa henni ekki að fara í skeiðið.
Hún elskar að vera með á sjálfum!
Skerpla, fædd 2013.
Skerpla er fædd svört en gránar með aldrinum. Hún er undan Hrymi frá Hofi. Hún er dálítið lík systir sinni Glettu að því leyti að henni þykir gott að fá klapp. Hún er búin að fara í fjárleitir þó ung sé og stóð sig með prýði. Þegar hún var skilin eftir uppí fjalli með lausum hestum elti hún frekar fólkið, sem lýsir persónuleikanum hennar vel.
Gípa, fædd 2014.
Gípa er í eigu Sóleyjar, dóttir Dodda og Theu. Hún er nefnd eftir tröllskessunni Gípu sem gekk gegnum Skorrastað í forna daga. Nafnið passar vel þar sem hún er stór og mikil meri. Hún er með gott tölt og yfirveguð og róleg miðað við aldur.
Skáldið, fæddur 2015.
Skáldið er móálóttur á litinn í eigu Jónu Árnýjar. Hann er nýtaminn og lofar góðu. Hann er undan Steini Steinarri frá Útnyrðingsstöðum.
Úlfur, fæddur 2016.
Úlfur heitir eftir hljómsveitinni ÚlfurÚlfur þar sem hann er fæddur sama dag og þeir héldu tónleika í Neskaupstað og gistu á Skorrastað. Einnig passar nafnið vel við lit hans þar sem hann er móálóttur eins og albróðir sinn Skáldið. Úlfur er í byrjun tamningar sumarið 2020 og virðist lofa góðu.
Sólstafur, fæddur 2017.
Sólstafur er síðasta afkvæmið undan Orku. Hann er í eigu Sigga, eiginmanns Jónu. Hann er nefndur eftir hljómsveitinni Sólstafir, þar sem þeir voru að spila í Neskaupstað nóttina sem hann fæddist. Nafnið passar vel við hann þar sem hann er með mjóa blesu sem líkist sólstafi. Hann er mjög forvitinn og vinalegur hestur, sem vill þó helst vera utan girðingar.
Frigg frá Fremra-Hálsi, fædd 1996 – felld 2016
Frigg var keypt að sunnan og kom á Skorrastað 2006. Hún er fyrstu verðlauna meri (aðaleink. 8,11) og móðir Blysfara á Fremra-Hálsi sem stóð sig með prýði á Landsmóti 2011 með einkunn 8,49 í kynbótadómi. Frigg átti 11 afkvæmi á sinni lífsleið.
2003 – Spaði frá Fremra-Hálsi (ræktuð af Jóni Benjamínssyni) – Faðir Þristur frá Feti
2004 – Frá frá Fremra-Hálsi (ræktuð af Jóni Benjamínssyni) – Faðir Gauti frá Reykjavík
2005 – Blysfari frá Fremra-Hálsi (ræktaður af Jóni Benjamínssyni) – Faðir Arður frá Brautarholti
2007 – Skorri frá Skorrastað – Faðir Gári frá Auðsholtshjáleigu (felldur)
2008 – Sæstjarna frá Skorrastað – Faðir Þóroddur frá Þóroddsstöðum
2009 – Reikistjarna frá Skorrastað – Faðir Grásteinn frá Brekku, Fljótsdal
2010 – Hástjarna frá Skorrastað – Faðir Hágangur frá Narfastöðum
2011 – Perla frá Skorrastað – Faðir Markús frá Langholtsparti (lést af slysförum)
2014 – Sólar frá Skorrastað – Faðir Hágangur frá Narfastöðum
2015 – Skart frá Skorrastað – Faðir Þristur frá Feti
2016 – Gimsteinn frá Skorrastað – Faðir Magni frá Ósabakka
Sæstjarna, born 2008.
Sæstjarna er lítil fjörug meri með mjúkt tölt og frábært tölt. Hún er fædd á sjómannadaginn 2008 og fékk þess vegna nafnið Sæstjarna. Hún er einungis fyrir allra hörðustu knapanna þar sem hún vill fara hratt yfir. Hún er dóttir Þórodds frá Þóroddsstöðum.
Reikistjarna, fædd 2009.
Reikistjarna er gangsöm meri, en ekki þjálfuð á skeiði. Hún vill vinna mikið fyrir mann og er sjálfstæð með góðan reiðvilja. Stundum er hún svo sjálfstæð að hún vill ekki láta ná sér fyrir reiðtúrinn. Hún er með mjúkt tölt og brokk.
Hástjarna, fædd 2010.
Hástjarna fékk nafnið eftir föður sínum Hágangi, en er svo einnig stærsti hesturinn okkar. Hún er með mikinn vilja, og unir sér vel í fjárleitum á haustin.
Sólar, fæddur 2014.
Til að halda áfram með nafngiftirnar, þá fékk hann nafnið Sólar. Hann er albróðir Hástjörnu, en aðeins grannvaxnari. Hann er fax og taglprúður og með hvíta leista á afturfótum. Hann er gangsamur, með gott brokk.
Skart, fædd 2015.
Skart er brúnskjótt hryssa undan Þristi frá Feti og í eigu Sunnu Júlíu. Hún er smávaxin og ljúf. Hún er klárhryssa sem vill helst tölta í nátúrunni.
Gimsteinn, fæddur 2016.
Gimsteinn er síðasta afkvæmi Friggjar. Hann er góður vinur jafnaldra síns, Úlfs, en þeir eyddu vetrinum 2016-2017 saman á hesthúsi með mæðrum sínum.
Vindur, fæddur 2014.
Vindur kemur norðan úr Hvammstanga úr sláturstóði. Hann var keyptur veturgamall vegna litar síns, en hann er vindóttur. Hann er ljúfur persónuleiki, en á erfitt með gang.
Söngur, fæddur 2017.
Söngur var fæddur á Miðsitju í Skagafirði – hestafirðinum. Sunna vann á Miðsitju vorið 2017 og reið á mikið á merinni Aríu. Þegar merin var ekki að komast í form á 2 mánuðum kom í ljós að merin var fylfull og kastaði daginn sem Sunna hætti á Miðsitju. Fékk hún folaldið að gjöf frá eigendum, og nú er hann hluti af fjölskyldunni. Hann er orðinn stór og mikill, og verður áhugavert að temja næsta vetur.
Æsa, fædd 1994 – felld 2019.
Æsa var í eigu frændfólks Sunnu Júlíu. Hún kom í sveitina þegar Sunna var unglingur og reið hún henni mikið út. 2018 fékk Sunna Júlía hana að gjöf og eyddi hún síðasta árinu sínu í sælunni á Skorrastað.